Forystufólk í íslensku þjóðlífi er á móti opnu sjókvíaeldi. Þetta opna bréf sem birtist þann 4. apríl 2024 var undirritað af 18 forystuaðilum í viðskiptalífinu og landeigendum.
Sjálfsímynd Íslands tengist náttúruauðlindum og legu landsins órjúfanlegum böndum.
Þegar horft er til jarðfræðilegs mikilfengleika eldgosa og heitra lauga, stórbrotinna
norðurljósa, villts dýralífs og ósnortinnar náttúru, er Ísland einstakt á heimsvísu.
Í dag byggir Ísland sjálfstæð þjóð sem trúir á sjálfsákvörðunarrétt sinn.
Íslendingar mótuðust í deiglu sjálfstæðisþrár og ættu aldrei að láta erlenda hagsmuni
ganga í berhögg við sína eigin.
Við hvetjum heimsbyggðina til að sækja okkur heim, njóta gæða landsins og fjárfesta af ábyrgð, fremur en að ganga á auðlindir þessa stórkostlega lands. Við getum ekki látið það viðgangast að erlend fyrirtæki hagnýti meira af arfleifð okkar og þjóð en þau skila til baka.
Hagkerfi eyríkis á borð við okkar þarfnast þess að hugsa og skipuleggja langt fram í tímann. Auðlindir eru alls staðar dýrmætar en eyþjóð verður að standa dyggan vörð um þær sem hún sjálf býr yfir.
Sjálfbærni verður að vera kjarni alls þess sem við tökum okkur fyrir hendur. Framtíðin krefst þess af okkur að allar viðskiptaáætlanir séu sjálfbærar og skili framtíðarkynslóðum betra búi og hreinni náttúru.
Nýtt frumvarp matvælaráðherra um lagareldi sem var til umfjöllunar á Alþingi inniheldur regluramma um opið sjókvíaeldi á Íslandi; starfsemi sem brýtur gróflega í bága við öll ofantalin grunngildi. Sjókvíaeldisfyrirtækin eru að langstærstum hluta í eigu norskra fyrirtækja sem greiða hér lágmarksskatta en hafa hámarksáhrif á náttúruauðlindirnar, auk þess að vega beinlínis að sjálfsákvörðunarrétti okkar. Opið sjókvíaeldi er ósjálfbært, eitrar lífríkið og brýtur í bága við gildi sem höfð eru að leiðarljósi í umhverfismálum meðal ríkja um heim allan. Það skilur eftir sig mengað
umhverfi og útrýmir svæðisbundnum villtum stofnum. Við biðlum því til alþingismanna okkar og ráðherra að vinna að því að draga úr og stöðva að lokum sjókvíaeldi. Við trúum því staðfastlega að auður Íslands liggi í sjálfbærni.